Anna H. Pétursdóttir, formaður, frá Thorvaldsensfélaginu
Aðalheiður Frantzdóttir, meðstjórnandi, frá Félagi Alþýðuflokkskvenna
Sigríður Hallgrímsdóttir, meðstjórnandi, frá Hvöt, Félagi Sjálfstæðiskvenna
Oddný Helgadóttir, ritari, frá Hvítabandinu
Guðrún Gunnarsdóttir, gjaldkeri, frá Félagi háskólakvenna
Kristín Rut Fjólmundsdóttir, meðstjórnandi, frá Framsóknarflokknum
Auður Reynisdóttir, varaformaður, frá Félagi háskólakvenna
Framkvæmdastjóri Mæðrastyrksnefndar er Jónína Unnur Gunnarsdóttir
Hinn 27. febrúar 1928 varð hörmulegt sjóslys þegar togarinn Jón forseti strandaði út af Stafnesi. Fimmtán skipverjar drukknuðu en tíu komust af. Voru þá hugir almennings opnir fyrir því að koma ekkjum og föðurlausum börnum til hjálpar. Hinn 20. apríl 1928 komu 22 konur, fulltrúar frá 10 kvenfélögum, saman á fund að Kirkjutorgi 4 í Reykjavík og var Mæðrastyrksnefndin stofnuð á þeim fundi. Laufey Valdimarsdóttir var kjörin formaður og sama vor opnaði nefndin skrifstofu í húsi Guðspekifélagsins í Reykjavík.
Eitt fyrsta verkefni nefndarinnar var að vinna að því að allar einstæðar mæður, ekkjur, ógiftar og fráskildar, fengju rétt til að fá greidd meðlög með börnum sínum. Jafnframt var unnið að því að þær fengju mæðralaun sem nægðu til að tryggja afkomu heimilanna.
Árið 1939 var nefndin endurskipulögð og gerð að sjálfstæðri stofnun. Er nefndin nú í dag samstarfsverkefni 6 félaga sem eru: Hvítabandið, Hvöt, Félag Sjálstæðiskvenna, Félag háskólakvenna, Framsókn, Alþýðuflokkur og Thorvaldsensfélagið.
Saga Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur er saga um baráttu fyrir réttlátri og mannúðlegri félagsmálalöggjöf. Starf nefndarinnar hefur haft mikil áhrif, jafnt á almenningsálitið sem og á löggjöfina og framkvæmd laganna. Starf nefndarinnar hefur breyst í áranna rás og í takt við tímann. Stöðugt fjölgar heimsóknum þeirra sem leita til nefndarinnar. Það eru ekki lengur aðeins einstæðar mæður, við hafa bæst karlmenn, bæði einstæðir og með forsjá barna, en einnig er áberandi hve öryrkjum og eldri borgurum hefur fjölgað á síðustu árum.
Félag háskólakvenna, Hvítabandið, Hvöt, félag Sjálfstæðiskvenna, Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Thorvaldsensfélagið.
Tveir fulltrúar frá hverju félagi eru í nefndinni og er vinnan unnin af sjálfboðaliðum.